Karellen

Hugmyndafræði Bæjarbóls.


Með aðalnámskrá leikskóla að leiðarljósi vill leikskólinn Bæjarból leggja sérstaka áherslu á eftirtalda þrjá þætti í uppeldisstarfinu.

Leikgleði – agi – lífsleikni

Hugtökin, leikgleði – agi – lífsleikni eru nátengd. Það er samhengi á milli þeirra. Barn sem hefur ákveðin sjálfsaga á auðveldra með að takast á við umhverfið. Lífsleikni byggist á alhliða þroska barns, færni þess til samskipta, rökrænnar tjáningar og til að bera virðingu fyrir umhverfi sínu.( aðaln) Við þessar aðstæður ætti einstaklingurinn að geta notið sín og fengið útrás fyrir leikgleðina.

Við á Bæjarbóli aðhyllumst stefnu John´s Dewey . Hann segir að börn læri í gegnum eigin reynslu og skynjun. Virkja þarf athafnagleði og forvitni barnanna, vekja áhuga þeirra og gagnrýna hugsun.
Því þyrfti að skapa barninu uppeldislegt umhverfi sem örvar þroska þess á virkan hátt með eðlilegum og hæfilega erfiðum viðfangsefnum og möguleikum til sjálfstæðra rannsókna og athugana.

Ákveðnar hugmyndir sækjum við í hugmyndafræði High Scope þar sem lögð er áhersla á að umhverfið sé í ákveðnu skipulagi, deildarnar eru svæðaskiptar. Á hverju svæði er unnið með ákveðið efni og er það aðgengilegt börnunum og auðvelt í frágangi. Á hverju svæði er starfsmaður börnunum til aðstoðar.
Við leggjum áherslu á að ákveðinn rammi sé á dagskipulagi frá degi til dags. Það veitir börnunum öryggi að vita hvað kemur næst og auðveldar hinum fullorðna starfið.

Einnig leggjum við áherslu á að raða saman í dagskipulagið ólíkum verkefnum t.d. kyrrseta / hreyfing, frjálst starf / skipulagt starf.

Við gefum frjálsa leiknum mikið rými í dagsskipulaginu, en erum þó með og þá sérstaklega á eldri deildunum ákveðnar stundir yfir daginn þar sem hinn fullorðni leggur fyrir verkefni sem börnin fá að kljást við eins og markvissa málörvun, stærðfræðiverkefni, skipulagða hreyfingu og þemastarf. Elstu börnin á yngri deildum fara í hópavinnu til að undirbúa þau undir flutning á eldri deildar.

Leikgleði.

Við leggjum áherslu á að samskipti, umhverfi, uppeldishættir og viðfangsefni stuðli að lífsgleði barna.

Það er gundvallaratriði í leikskólastarfi að börnum og starfsfólki líði vel. Gleðiríkt andrúmsloft í leikskólanum hefur jákvæð áhrif á börnin. Mikilvægt er að allir hafi gaman að því sem við erum að gera hverju sinni, það hefur áhrif á börnin.

Mikilvægt er að taka þátt í gleði barnanna. Barn er ekki smækkuð mynd af fullorðnum, það hugsar öðruvísi og á rétt á að vera barn og njóta bernsku sinnar. Sumt sem barni finnst fyndið og skemmtilegt má ekki afgreiða sem hávaða, bull og vitleysu. Það er mikilvægt að fullorðnir reyni að setja sig í spor barnsins í þessu efni sem öðru, skoða heiminn út frá sjónarhóli barnsins – líka það sem er fyndið og skemmtilegt – og hlæji með því, þegar það á við en innan skynsamlegra marka! Mikilvægt er að grípa tækifærið þegar gleði barnsins fær útrás í að gera eitthvað nýstárlegt og leyfa sköpunarþrá þess að njóta sín.

Agi.

Mikilvægt er börnin öðlist ákveðin sjálfsaga, læri reglur í umhverfi sínu og fari eftir þeim. Það auðveldar okkur samveru í samfélaginum að allir kunni ákveðnar umgengnis reglur og fari eftir þeim. Börn þurfa að læra reglurnar og vita til hvers er ætlast af þeim. Þáttur fullorðinna í umhverfi barnanna er ekki síður mikilvægur. Við erum fyrirmyndir barnanna, þau læra af okkur.
Styðja þarf börn í að virða settar reglur og gefa þeim kost á að leysa úr eigin málum og deilum á friðsamlegan hátt. (lögð er áhersla á að hjálpa börnunum að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma svo samskipti þeirra einkennist af virðingu) Þau eru hvött til að taka tillit til hvers annars, á matmálstímum, í samverustund og þegar við erum að klæða okkur út í fataklefanum.

Með ákveðnu skipulagi og samræmdum reglum innan leikskólans kennum við börnunum ákveðinn aga, þau vita til hvers er ætlast af þeim við ákveðnar aðstæður.
Einnig læra þau að fara eftir reglum í ákveðnum leikjum s.s. regluleikjum sem mikið eru notaðir í hreyfistundum barnanna. Þar læra þau líka að fara eftir fyrirmælum í jákvæðu umhverfi.

Lífsleikni.

Með lífsleikni er átt við hæfni til að takast á við lífið sjálft. Segja má að leikskólanámið sé í raun samfellt lífsleikninám. Lífsleikni byggist á alhliða þroska barns, færni þess til samskipta, rökrænnar tjáningar og til að bera virðingu fyrir umhverfi sínu. Lífsleikni barnanna er efld með því að öllum þroskaþáttunum sé sinnt.
Barnið er dýrmætur einstaklingur sem starfsfólki leikskólans er falið að annast af umhyggju og leiða til þroska. Sjálfsvirðing er mjög mikilvægur þáttur í lífi einstaklings. Hún mótast ekki síst á fyrstu árum barnsins og meginatriði í mótun hennar er virðing uppalandans fyrir barninu.

Við leggjum áherslu á að hverju barni sé sinnt af alúð, að því sé sýnd óskert athygli þegar hlustað er á það, horft í augu þess og það látið vita að framlag þess skipti máli. Þegar barn leitar til starfsmanns er mikilvægt að greiða úr málum af virðingu og leiðbeina því til að finna sjálft lausnir. Þá er mikilvægt að örva og hvetja þegar barnið glímir við eitthvað sem því finnst það ekki geta og hrósa því þegar vel er gert. Þetta er liður í að efla sjálftraust barnsins, hjálpa því að skilja að það er mikilvægur eintaklingur. Barn sem hefur sterka sjálfsmynd og býr við öryggi og traust, líður betur og er líklegra til að vera í góðum samskiptum, bæði við félaga sína í leikskólanum og starfsfólk. Mikilvægt er að barnið læri að við erum öll ólík, engir tveir eru eins, allir hafa jafnan rétt. Það er hlutverk starfsfólks að leiðbeina barninu í mannlegum samskiptum hvort sem það er úti í garði, í fataklefanum, við leik eða vinnu. Lögð er áhersla á að hjálpa börnunum að leysa ágreiningsmál sem upp kunna að koma svo samskipti þeirra einkennist af virðingu. Í leikskóla á barnið að fá tækifæri til að læra að leysa deilur á jákvæðan og friðsamlegan hátt og læra að gleðjast með öðrum og lifa í sátt við sjálft sig og umhverfi sitt.

Einkunnarorð Bæjarbóls eru: Leikgleði – agi – lífsleikni.

Skólanámskrá leikskólans í heild sinni er að finna hérna Skólanámskrá Bæjarbóls.

Mikil áhersla er lögð á læsi í daglegu starfi sem tengist inn í fjölmarga þætti leikskólastarfsins eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Læsisstefnuna má finna hér í heild sinni læsisstefna lokaútg.pdf


Unnið er eftir gæðakerfi til að tryggja stöðugar umbætur.


© 2016 - 2024 Karellen