Karellen

Velkomin á Bæjarból

Bæjarból er 4 deilda leikskóli. Þar geta dvalið 86 börn samtímis. Tvær deildir eru ætlaðar börnum 12 mán. - 3 ára og heita þær deildar Hnoðraholt og Hraunholt. Eldri börnin 4 - 5 ára eru á Móholti og Nónholti. Boðið er upp á breytilegan dvalartíma frá 4 - 9 tíma á dag. Níundi klukkutíminn er hlutfallslega helmingi dýrari en hinir átta.

Að byrja í leikskóla.
Þegar barn hefur fengið leikskólapláss á Bæjarbóli, eru foreldrar boðaðir á kynningarfund í leikskólanum. Þá er þeim kynnt starfssemi leikskólans, starfsfólk og húsakynni ásamt því að fylla út dvalarsamning og skiptast á upplýsingum. Næsta skref er að barnið kemur í heimsókn með foreldri og hittir deildarstjóra og þann starfsmann sem tekur það í aðlögun, þ.e. fylgir því eftir fyrstu vikurnar. Barnið skoðar húsakynni, sérstaklega deildina sína og leikur sér e.t.v. smá stund.
Aðlögun.
Mikilvægt er að standa vel að aðlögun barns í leikskóla frá upphafi. Hvernig til tekst í byrjun getur haft áhrif á alla leikskólagöngu barnsins. Barnið þarf að aðlagast nýju umhverfi, kynnast börnum og fullorðnum sem fyrir eru, læra að vera í hóp, virða reglur o.fl. Leikskólakennari og foreldri ræða saman um tilhögun aðlögunarinnar og a.m.k. annað foreldri dvelur með barninu í upphafi leikskólagöngu. Meðan á aðlögun stendur gefst foreldrum tækifæri til að kynnast starfsmönnum deildarinnar og því starfi sem fram fer í leikskólanum. Með því er lagður góður grunnur að ánægjulegri leikskóladvöl. Mikilvægt er að jákvæð samskipti skapist á milli foreldra og starfsmanna því það stuðlar að jákvæðum viðhorfum barnsins til leikskólans.

Að byrja í leikskóla er ný reynsla fyrir barn og foreldra þess.Upphafið er mikilvægt, fyrir börn jafnt sem foreldra.Þau kynnast í sameiningu sem flestum þáttum í starfi leikskólans, nýjum húsakynnum, starfsfólki og leikfélögum.
Það veitir barni mikið öryggi að takast á við nýjar aðstæður með foreldra sér við hlið.

Gera þarf ráð fyrir fimm dögum í aðlögun sem er ein skólavika.


Aðlögun - viðmið:

1. dagur: Barn mætir í stutta heimsókn, skoðar deildina, fær fatahólf og dvelur um það bil klukkustund með foreldri.
2. dagur: Barn og foreldri dvelja saman í leikskólanum í tvær klukkustundirfrá 9:00 – 11:00.
3. dagur: Barnið er í 2-3 klst í leikskólanum. Foreldri er boðið að fara frá í stutta stund í samráði við deildarstjóra.

4. dagur: Barnið er í 3-5 klst í leikskólanum, fjarvera smám saman lengd í samráði við deildarstjóra.

5. dagur: Barnið er í leikskólanum í 4-6 klst.
6. dagur: Barnið dvelur í leikskólanum umsaminn vistunartíma ef vel gengur, fer það eftir þörfum hvers og eins.

Hafa ber í huga að þetta er eingöngu viðmið um leikskólabyrjunina þar sem það er mjög einstaklingsbundið hversu langan tíma hvert barn þarf. Hafa ber í huga að gott er að gefa sér góðan tíma í aðlögun þó að börnin virðist vera örugg.

Hér má finna upplýsingabækling um leikskólann

velkomin í bæjarból 2021 (1).pdf





© 2016 - 2024 Karellen