Karellen

Markmið leikskólans er að auka gleði og vellíðan barna og starfsfólks með áherslu á hreyfingu, næringu og listsköpun í leik og starfi.


Heilsustefnan byggir á þremur þáttum sem eru: hreyfing, listsköpun og næring.

Heilsuleikskólar þurfa að starfa eftir ákveðnum viðmiðum heilsuleikskóla.
Öll börn ættu að alast upp við það að læra að virða heilsu sína og annarra sem ómetanleg verðmæti og grundvöll fyrir fullnægjandi lífi. Í heilsuleikskóla er heilsuefling höfð að leiðarljósi í einu og öllu. Markmið heilsustefnunnar er að venja börn strax í barnæsku við heilbrigða lífshætti með það í huga að þeir verði hluti af lífsstíl þeirra til framtíðar. Áhersluþættir heilsuleikskóla geta verið mismunandi eftir leikskólum en góð næring, góð hreyfing og listsköpun skal ávallt vera aðalsmerki þeirra.

Á Bæjarbóli leggjum við mikla áherslu á hreyfingu því hreyfing hefur áhrif á allan annan þroska. Börn á leikskólanum eiga að fá tækifæri til æfinga og leikja sem efla líkams- og hreyfiþroska. Öll hreyfing stuðlar að andlegri og líkamlegri vellíðan. Með æfingum sem eru þroskandi fyrir skynstöðvarnar, komum við til móts við þarfir líkamans og nálgumst meginmarkmið hreyfinámsins, sem er að ná valdi á snertiskyni, jafnvægisskyni og stöðuskyni.

Hreyfiþjálfun fer fram í íþróttasal hússins þar sem unnið er eftir markvissri skipulagðri hreyfiáætlun sem tekur mið af aldri barnanna. Þar leggjum við áherslu á leiki, stöðvaþjálfun, íþróttalíkaleiki, teygjur og slökun. Börnunum er skipt niður í litla hópa. Hvert barn fer í skipulagða hreyfistund einu sinni í viku sem hefur upphitun, aðalefni, teygjur og slökun. Einnig notum við salinn í frjálsum leik en þá fá börnin tækifæri til að leika frjálst með þann búnað sem er í salnum. Útisvæðið er nýtt til þjálfunar á grófhreyfingum, börnin fara út einu sinni eða tvisvar á dag. Á öllum deildum leikskólans er farið í gönguferðir einu sinni í viku.

Hér er hægt að kynna sér nánar um áhersluþætti heilsustefnunnar http://heilsustefnan.is/


© 2016 - 2024 Karellen