Karellen
news

Skynjunarleikir í flæði

07. 11. 2021

Á föstudaginn var flæði um allan leikskólann. Að þessu sinni voru skynjunarstöðvar í flæðinu og alls konar verkefni tengd skynfærum okkar, snertingu, sjón, heyrn, bragði og lykt.

Ákveðið var að leggja áherslu á skynjunarleiki í vetrarstarfinu í tengslum við þróunarstyrk sem við á Bæjarbóli fengum úr þróunarsjóði leik – og grunnskóla í Garðabæ fyrir skólaárið. Markmið með þróunarverkefninu „ Skynjunarleikir“ eru:

  • Að veita börnum tækifæri á að nota skynfærin til að rannsaka umhverfi sitt og heiminn,
  • Að vinna með málþroska, hreyfiþroska, líkamsvitund og samskipti í gegnum skynjunarleiki
  • Að nýta skynjunarleiki til að skapa ró með börnum við ákveðnar aðstæður ef þau eru þreytt, æst og óróleg.
  • Að auka skilning á námi ungra barna
  • Að auka fjölbreytni í leikefni og verkefnum ungra barna
  • Að efla leikfangakost leikskólans með áherslu á skynjunarleiki

Flæðið gekk ótrúlega vel og börnin sóttu eftir áhugasviði í fjölbreytt verkefni sem voru á víð og dreif um leikskólann. Í boði var núvitundarherbergi, leikur með slím, með klaka og dýr, með hrísgrjón í keri, með ljós og skugga, ljósaborð, liti og mynstur, leir og fleira. Einnig að prófa að stíga á mismunandi áferð, smakka matvöru með ólíku bragði án þess að sjá og finna lykt í lyktarkrukkum.

Þegar börnin voru spurð hvað var skemmtilegast í flæðinu komu ýmis svör frá þeim meðal annars var skemmtilegt að fara á aðrar deildar, að leika með klaka, að horfa á dýrin, að leika með slím, að smakka og fleira. Allir virtust að minnsta kosti mjög glaðir með daginn og kom upp í spjalli við elstu börnin að þau vildu hafa svona flæði fljótlega aftur.

© 2016 - 2024 Karellen