news

Fréttabréf fyrir októbermánuð

01. 10. 2019

Þó að haustið sé búið að vera milt og hlýtt fer nú að koma tími til að huga að vetrarfatnaði fyrir börnin. Nauðsynlegt er þegar fer að kólna að börnin hafi hlý föt meðferðis og allra veðra von. Hlífðarföt, vettlingapör, hlý húfa, ullarsokkar og þykk peysa þurfa að vera í leikskólanum og auðvitað allt vel merkt.

Markvisst vetrarstarf er komið í gang og foreldrasamtöl á öllum deildum nýtast meðal annars til að kynna áherslur á deildum. Þemað okkar í vetur er „Ég sjálfur og listafléttan“ og er vinnan byrjuð til dæmis í gegnum vettvangsferðir þar sem lögð er áhersla á að skoða litina í náttúrunni og haustið, börnin gera sjálfsmyndir og þemað verður tengt inn í söng og sögur. Foreldrar eru hvattir til að spjalla um verkefni leikskólans heima og hvetja börnin til að segja frá. Enn eru ný börn að byrja í leikskólanum og í október bætast þrjú börn í hópinn á Hraunholti og eitt á Hnoðraholti. Bryndís starfsmaður frá Hraunholti síðasta vetur kemur aftur til starfa og Lísa María verður okkur innan handa í afleysingastöðu. Það er ánægjulegt að fá þær báðar aftur til starfa.

Starfsáætlun leikskólans verður tilbúin um miðjan október og verður sett inn á heimasíðu leikskólans www.baejarbol.is.

Dagana 7. – 13. október verður haldin forvarnavika í leik- og grunnskólum Garðabæjar.

Þema vikunnar er samvera og umhyggja og slagorð hennar er „Vinátta er fjársjóður“. Boðið verður upp á margvíslega viðburði í bænum sem í tengslum við forvarnarvikuna sem auglýstir verða síðar.

Gott foreldrasamstarf er okkur mjög mikilvægt og gaman að nokkrir eru búnir að bjóða fram krafta sína til að starfa með foreldraráði og foreldrafélagi. Kærar þakkir fyrir það. Aðalfundur foreldrafélagsins verður haldinn síðar í október og hann auglýstur þegar dagsetning er komin á hreint.

Bæjarból tók þátt í plastlausum september og áfram leitast við að takmarka plastnotkun innan leikskólans. Við biðjum því alla foreldra um að koma með einhvers konar fjölnotapoka til að fara með blaut föt heim í og minnka plastpokanotkun með okkur.

Hér kemur svo yfirlit yfir það helsta sem er á döfinni í október :

Þriðjudagur 1. okt – föstudagur 4. okt - Foreldrasamtöl á Hnoðraholti og Hraunholti, kynning á vetrarstarfinu fer fram í samtölunum.

Föstudagur 4. október söngsalur og flæði á milli Móholts og Nónholts

Miðvikud. 9. október – miðvikudagsins 16. október – Forvarnarvika í Garðabæ

Föstudagur 11. okt. Bleikur dagur og söngsalur. Allir mæta í bleiku.

Föstudagur 18. Október söngsalur

Miðvikudagur 23. okt. Elstu börnunum á Nónholti boðið á sögustund í Þjóðleikhúsinu.

Fimmtudagur 24. okt. Bangsa og náttfatadagur. Allir mega koma í náttfötum í leikskólann og við munum dansa og hafa gaman.

Föstudagur 25. Okt. Skipulagsdagur – menntadagur starfsmanna og leikskólinn lokaður.

Við minnum alla á að virða þann vistunartíma sem keyptur er og endilega láta okkur vita ef börn eru í fríi eða veik heima. Hægt er að tilkynna veikindi og leyfi í gegnum Karellen appið.

© 2016 - 2020 Karellen