news

Bæjarból 45 ára

01. 12. 2021

Leikskólinn Bæjarból hélt upp á 45 ára afmæli föstudaginn 12. nóvember síðastliðinn, en skemmtilegt er að segja frá því að leikskólinn er sá fyrsti sem byggður var sem slíkur í Garðabæ. Á þessum 45 árum hefur svo sannarlega margt breyst í leikskólastarfinu og gaman að skoða gamlar myndir frá skólanum. Árið 1976 var fyrsta deild leikskólans tekin í notkun. Sigurlaug Gísladóttir frá Hofstöðum í Garðabæ var þá forstöðukona, hún var frumkvöðull í leikskólamálum bæjarins. Leikskólinn stækkaði smám saman í samræmi við aukna þörf fyrir leikskólapláss innan bæjarins. Önnur deild var tekin í notkun 1978 og 1996 var byggð 25 fermetra viðbygging við skólann. Árið 1999 var skólinn stækkaður svo um munar eða um 255 fermetra. Í þeirri viðbyggingu var meðal annars langþráður salur og eldhús. Kröfur varðandi þjónustu í leikskóla höfðu aukist og mikilvægt að geta boðið börnum upp á heitan mat í hádeginu. Aukin áhersla varð í leikskólastarfinu á hollustu og hreyfingu í kjölfarið. Árið 2010 fékk leikskólinn viðurkenningu sem Heilsuleikskóli og hefur starfað eftir viðmiðun heilsustefnunnar æ síðan, einnig er leikskólinn þátttakandi í verkefninu heilsueflandi leikskólar á vegum landlæknisembættisins.

Um tveggja ára tímabil sá leikskólinn um deild fyrir fimm ára börn í húsnæði Flataskóla og einnig var bætt við deild á leikskólalóðinni. Í dag er leikskólinn hins vegar fjögurra deilda, börnin geta verið 82 og þar starfa um 30 starfsmenn. Gildi leikskólans eru leikgleði, agi og lífsleikni.

Mikill meirihluti allra barna á Íslandi eru í leikskólum en skv. tölum frá hagstofunni eru hátt í 90 % barna á aldrinum 1-5 ára í leikskóla. Mikilvægur hluti af þjónustu við bæjarbúa í Garðabæ og fjölskyldufólk er að börn fái notið sín í leikskólastarfi, á sínu fyrsta skólastigi. Að því sögðu má ekki gleyma því veigamikla hlutverki sem starfsmenn hafa í lífi ungra barna og skiptir miklu máli að leikskólinn sé mannaður hæfu, áhugasömu starfsfólki. Þeir sem hafa áhuga á því að starfa með börnum og vilja fá tækifæri til að reyna sig í leikskólaumhverfinu ættu að kynna sér þau störf sem í boði eru. Störfin eru auglýst inn á heimasíðu Garðabæjar. Mannauður leikskólans er lykillinn að starfinu og starfsfólk Bæjarbóls á hrós skilið fyrir metnaðarfullt starf í krefjandi en gefandi starfsumhverfi.

Því miður var ekki hægt að bjóða gestum til afmælisveislu að þessu sinni vegna Covid smita í samfélaginu en börn og starfsfólk héldu daginn hátíðlegan. Þóranna Gunný Gunnarsdóttir sá um skemmtun í söngsal og boðið var upp á afmælisköku í nónhressingu. Foreldrafélagið gaf leikskólanum segulkubba með kúlubraut að gjöf og mikil lukka með þá meðal barnanna.

© 2016 - 2022 Karellen