Karellen
news

Útskrift og útskriftarferð elstu barnanna á Nónholti

20. 05. 2019

það er mikið um að vera hjá öllum börnum í leikskólanum en skipulögð dagskrá hefur verið sérstaklega mikil hjá elstu börnunum undanfarna daga. Nú styttist í að þau fari í grunnskólann og kveðji okkur á Bæjarbóli. í síðustu viku var útskriftarathöfn í salnum þar sem foreldrum var boðið að vera viðstödd. Börnin sungu og fluttu stuttan leikþátt fyrir foreldra sína og aðra gesti. Allir fengu afhentar ferilmöppur þar sem meðal annars var búið að taka saman hrós frá vinum á deildinni, ásamt pennahólk sem þau höfðu útbúið. Stundin var virkilega hátíðleg og skemmtileg og börnunum í rauða hópi sem fara í bláan hóp á næsta ári var boðið að vera viðstödd.

daginn eftir útskriftarathöfn var haldið í útskriftarferð en þetta árið voru börnin á Bæjarbóli svo heppin að vera boðið með leikskólunum frá Álftanesi. Sú hefð hefur skapast að Lions menn á Álftanesi bjóða elstu börnunum á Holtakoti og Krakkakoti ásamt einum leikskóla innan úr Garðabæ í útskriftarferð. Lions menn sjá algjörlega um að skipuleggja ferðina frá a til ö og eiga heldur betur heiður skilið fyrir að gera þetta fyrir börnin.

Lagt var af stað með rútu frá leikskólanum k. 8.30 og haldiðafstað í sumarbústaðarbyggðina við Ölfus í Borgarfirði. Þar opnaði einn Lions manna, hann Jörundur, sumarbústaðinn sinn fyrir hópnum og var farið í hina ýmsu leiki. Í hádeginu fengu allir grillaðar pylsur, safa og ís í eftirrétt.

Eftir hádegismatinn var haldið upp í rútu þar sem leiðin lá í Geitasetrið að Háafelli. Þar fengu börnin að klappa geitunum og halda á litlum kiðlingum, skoða silkihænur og elta kanínu. Hún Jóhanna á Háafelli gaf svo börnunum mynd til minningar um geitabúið.

Þegar börnin höfðu fengið nóg af því að skoða dýrin á bænum fengu þau að leika sér og hlaupa um túnið, en nóg var af alls kyns skemmtilegum og óhefðbundnum leiktækjum sem börnin gátu leikið sér í. Að lokum fengu allir pizzasnúða, kleinur og djús áður en haldið var af stað aftur heim á leið með rútunni.

Þetta var langur en dásamlegur dagur bæði fyrir börnin og fullorðna og það voru þreyttir en sælir krakkar sem komu í leikskólann aftur um fimmleitið. Við kunnum Lions mönnum miklar þakkir fyrir þetta frábæra framtak að bjóða elstu börnum leikskólans í svona glæsilega og fjölbreytta útskriftarferð.

© 2016 - 2024 Karellen