Karellen
news

Uppskera í skólagörðunum

17. 09. 2019

Í sumar hafa börnin á Bæjarbóli verið þátttakendur í skólagörðunum enda leikskólinn einstaklega vel staðsettur og örstutt að rölta í garðana. Að sögn Ástu sem sér um skólagarðana hefur sprettan sjaldan verið jafngóð og falleg enda sumarið með eindæmum veðursælt. Búið er að taka allt grænmetið upp og það svo framreitt með hádegisverði í leikskólanum. Grænkál var þurrkað í ofni og borðað eins og snakk og nú í vikunni var komið að því að taka upp kartöflur. Börnin á deildinni Móholti tóku upp helminginn af kartöflunum og börnin á Nónholti fóru svo í kjölfarið og tóku upp restina. Kartöflurnar verða eldaðar með hádegismatnum og að sjálfsögðu eru börnin stolt að njóta afraksturs ræktunarinnar yfir sumarið. Sjálfbærni er einn af grunnþáttum menntunar og eitt af námssviðum leikskólans og heilmikið nám er fólgið í þessari vinnu barnanna. Að setja plönturnar niður að vori, sinna þeim yfir sumarið þannig að þær fái sprottið og uppskera að lokum gómsætt grænmeti og kartöflur sem hægt er að njóta í leikskólanum.

© 2016 - 2024 Karellen