Karellen
news

Komdu nú að krunkast á

07. 11. 2019

Í dag fengu 3- 5 ára leikskólabörnin á Bæjarbóli skemmtilega heimsókn þar sem ljóðskáldið Aðalsteinn Ásberg og söngkonan Þorgerður Ása fluttu lifandi og skemmtilega tónlistar- og bókmenntadagskrá. Í dagskránni sækja þau í þjóðlegan sagna- og söngvasjóð þar sem krummavísur og sagnir tengdar hrafninum, eftirlætisfugli margra barna og fullorðinna, eru í fyrirrúmi. Áhorfendur tóku virkan þátt og fengu börnin innsýn í það hvernig sagan og menningin endurspegla heiminn allt í kringum okkur. Eiga krummafótur og krummaskítur til dæmis eitthvað sameiginlegt?

Börnin fylgdust vel með í salnum, sungu krummavísur og hlýddu hugfangin á flytjendur. Á elstu deildinni er mikil vinna í gangi í tengslum við Krumma, hann er fugl vikunnar og unnið hefur verið með kvæðið um Krummaling eftir Aðalstein Ásberg í lesmáli. Börnin eru líka búin að gera skuggamynd með kolum og heppilegt að eitt barnið kom með uppstoppaðan Krumma í leikskólann. Hann fær að vera nokkra daga hjá okkur og var einnig til sýnis í salnum í dag.

Sýningin er hluti af verkefninu skáld í leikskólum sem er í boði höfundarmiðstöðvar rithöfundasambands Íslands. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir glæsilegt framtak.

© 2016 - 2024 Karellen