Jólaundirbúningur á Bæjarbóli

11. 12. 2017

Jólaundirbúningur á Bæjarbóli

Í desembermánuði er jólaundirbúningur í fullum gangi víðast hvar og leikskólabörnin á Bæjarbóli vinna fjölbreytt verkefni á aðventunni. Fjölmargar hefðir og venjur hafa skapast á liðnum árum og meðal verkefna barnanna er að útbúa jólagjöf fyrir foreldra sína sem þau eru ákaflega stolt af. Foreldrafélagið hélt árlegan piparkökuskreytingadag í byrjun desember. Farið var í Vídalínskirkju með þrjá eldri árganga leikskólans á aðventuhátíð. Söngstund á föstudögum er tileinkuð jólasöngvum, kveikt er á aðventukransinum og börnin læra heitin á kertunum fjórum. Börnin eru búin að baka piparkökur og þau buðu foreldrum sínum í kaffiboð fimmtudaginn 7. desember. Leikskólinn fylltist af foreldrum sem þáðu piparkökur af mjög svo stoltum bökurum. Á einni deildinni var undirbúið söngatriði, lagið um Þyrnirós var sungið og leikið í salnum og vakti það mikla lukku. Foreldrar stöldruðu í góða stund með börnum sínum, tóku þátt í leik þeirra, spiluðu, spjölluðu og nutu samverunnar. Daginn eftir var svo komið að rauðum degi þar sem flestir mættu í rauðri flík. Jólatréð verður skreytt fyrir jólaballið og börnin búa sjálf til skrautið sem prýðir tréð yfir jólahátíðina þar sem leitast er við að nýta ýmislegt verðlaust efni í skrautgerðina. Jólasögur og söngvar leggja sinn ljúfa blæ yfir mánuðinn og lögð er áhersla á að draga úr þeirri spennu sem jólamánuðurinn getur valdið.


© 2016 - 2019 Karellen