Karellen
news

Jólaball

16. 12. 2019

Jólaballið á Bæjarbóli gekk einstaklega vel fimmtudaginn síðastliðinn. Börnin gengu í kringum jólatréð en á Bæjarbóli er allt skraut á jólatrénu heimagert, hver deild ákveður hvernig skraut eigi að gera og svo útbúa börnin það úr ýmsu efni. Í ár var skrautið úr perlum, íspinnaprikum, pappír og trölladeigi. Ákaflega skemmtileg hefð og fallegt skraut sem sýnir okkur að það þarf aldeilis ekki að kaupa tilbúna hluti til að hafa fallegt í kringum sig. Börnin taka svo skrautið sitt með heim fyrir jólahátíðina og þá fær það væntanlega að prýða jólatréð heima hjá þeim.

Jólaballið var með hefðbundnu sniði, börnin mynduðu hringi í kringum tréð, yngstu börnin voru annað hvort að leiða eldri börn eða starfsfólkið og svo var dansað. Þóranna sá um undirspil á gítarinn og ekki leið á löngu þar til rauðklæddir sveinar sáust þvælast um í garði leikskólans. Anna leikskólastjóri sótti karlana og vísaði þeim í salinn og það var nú heldur betur gaman að fá þá í heimsókn. Þetta voru þeir Kertasníkir og Askasleikir sem tóku heldur betur þátt í dansinum og sýndu börnunum einnig töfrabrögð. Í salnum var eitt afmælisbarn sem fékk að sjálfsögðu söng í tilefni dagsins.

Að lokum fengu öll börn leikskólans merkta pakka frá jólasveinunum. Jólasveinarir voru svo hrifnir af börnunum á Bæjarbóli að þeir tóku það sérstaklega fram hversu frábær hópurinn var. Mjög fáir urðu hræddir, en þar sem börnin eru svo ung þá er ekki að undra að þeim þyki dulítið ógnvænlegt að fá þessa sérkennilegu karla í heimsókn.

Hátíðlegur og virkilega vel heppnaður dagur í alla staði.


© 2016 - 2024 Karellen