Karellen
news

Fréttabréf fyrir septembermánuð

30. 08. 2019

Ágúst og september eru mánuðir mikilla breytinga í leikskólanum, börn færast á milli skólastiga, á milli deilda og ný börn hefja nám sitt á Bæjarbóli.

Á þessu hausti eru 24 ný börn í leikskólanum þannig að nokkuð stór hópur búinn að vera í aðlögun. Aðlögunartímabilið er álagstímabil í leikskólanum, bæði fyrir nýju börnin, þau sem fyrir eru og starfsfólkið. Nú eru samtals 79 börn í leikskólanum á fjórum deildum en yngstu börnin eru 12 mánaða og er það í fyrsta sinn sem við tökum svona ung börn inn í leikskólann. Í september verður því lögð áhersla á að skapa vellíðan og öryggi í barnahópnum. Jafnframt eru nokkrir nýjir starfsmenn búnir að bætast við starfsmannahópinn fyrir veturinn, þær Linda, Ída og Kristín. Mönnun hefur gengið vonum framar þetta haustið.

Að venju viljum við ítreka við alla foreldra að starfsmönnum er raðað á deildar í samræmi við vistunartíma barna og bendum á mikilvægi þess að foreldrar virði þann vistunartíma sem keyptur er og séu meðvitaðir um þann tíma. Þó að barn komi seint að morgni þá er sá tími sem ákveðinn er í samningi það sem gildir og barnið þarf að koma og fara innan þeirra tímamarka. Það munar verulega um það ef nokkur börn eru sótt of seint þar sem hluti starfsmanna er þá búinn að ljúka sínum vinnudegi. Einnig viljum við benda á að hafa alltaf nægan fatnað með börnunum í leikskólann, bæði hlýjan útifatnað og aukaföt í körfum og merkja fatnaðinn.

Þeir sem eiga eftir að sækja sér Karellen appið í símann sína endilega gerið það. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu leikskólans www.baejarbol.is en þar er einnig hægt að virkja foreldraaðgang. Ef þetta er óskýrt leitið þá aðstoðar hjá starfsfólki.

Gott foreldarsamstarf er okkur mjög mikilvægt og við óskum eftir áhugasömu fólki til að bætast í hóp bæði foreldrafélags og foreldraráðs. Þeir sem hafa áhuga geta haft samband við leikskólastjóra. Markvisst vetrarstarf hefst um miðjan september og boðið verður upp á foreldasamtöl á öllum deildum um mánaðarmótin september – október. Í foreldrasamtölum á haustönn verður meðal annars farið yfir vetrarstarf deildarinnar og önnur mál. Einnig minnum við á að ávallt er hægt að óska eftir samtali við deildarstjóra og/eða leikskólastjóra. Hér eru svo nokkrir viðburðir sem eru á döfinni í september:

Föstudagur 13. september – skipulagsdagur og leikskólinn lokaður.

Föstudagur 20. september – söngsalur þar sem allir syngja saman í salnum. Þóranna sér um söngsal.

Vikan 23. sept – 26. sept. Foreldrasamtöl á Móholti og Nónholti

Vikan 30. sept – 3. okt. Foreldrasamtöl á Hraunholti og Hnoðraholti

Fimmtudagur 26. september – evrópski tungumáladagurinn.

Föstudagur 27. september – Leikfangadagur – börnin mega koma með leikfang að heiman og söngsalur.


© 2016 - 2024 Karellen