Karellen
news

Fréttabréf fyrir júnímánuð

06. 06. 2018

Þá er langþráð sumar loksins komið og við vonum svo sannarlega að það verði okkur veðursælt. Í sumar verða einhverjar breytingar í starfsmannamálum og við fáum til okkar sumarstarfsmenn sem leysa af okkar frábæra starfsfólk í sumarfrí.

Sumarstarfsfólk úr atvinnuátaki Garðabæjar eru: Saga flokkstjóri, Kristín Sif, Alma Diljá, Brynja Lind, Sigga Ósk, Ingibjörg og Tinna. Þrjú ungmenni verða auk þess hjá okkur í gegnum vinnuskólann. Katla íþróttafræðingur var að hefja störf við Bæjarból en hún mun sjá um alla markvissa hreyfingu næsta vetur ásamt því að starfa með börnunum í sumar. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna til starfa.

Viðhald á baðherbergi á Hraunholti hefur dregist þó nokkuð og verður líklega farið í baðherbergið á Hnoðraholti í júlímánuði. Þá verður starfsemin í lágmarki, deildir sameinaðar og leikskólinn einnig þrifinn.

Við þökkum kærlega fyrir frábærlega velheppnaða vorhátíð foreldrafélagsins, allir voru glaðir og veðrið lék við okkur þann dag. Einnig viljum við þakka fyrir nýtt reiðhjól sem foreldrafélagið keypti fyrir útsvæðið.

Yfir sumartímann eru börnin oftast mikið úti og reynum við að hafa fjölbreytt efni á útisvæði, leiki, gönguferðir og ræktun í skólagörðum. Endilega berið sólarvörn á börnin að morgni ef veðrið er þannig, þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir börn með viðkvæma húð.Einnig þarf að hafa í huga að fatnaður sé við hæfi, ef til vill heldur léttari en í vetrarhörkunni t.d. þynnri húfur eða buff á höfuð og jakka, annars veit maður svo sem aldrei hvernig mun viðra.

Varðandi næsta vetur þá er stefnt að því að röðun á deildar verði eftirfarandi miðað við aldur:

Nónholt – Blandaður aldur, öll börn sem fædd eru 2013 ásamt börnum úr 2014 hópnum

Móholt – Blandaður aldur, börn fædd 2014 og 2015

Hnoðraholt – Blandaður aldur, börn fædd 2015 og 2016

Hraunholt – Blandaður aldur, börn fædd 2016 og 2017

Ennþá eru að verða breytingar í barnahópnum og ekki alveg komið á hreint hver staðan verður næsta vetur varðandi yngri deildar, fjölda barna og hópastærðir. Foreldrar geta komið við hjá deildarstjórum eða leikskólastjóra með spurningar. Vinaholtið verður ekki rekin sem deild næsta vetur og því leikskólinn fjögurra deilda með pláss fyrir 86 börn. Enn er auglýst eftir deildarstjóra fyrir Móholt án árangurs.

Íþróttadagur er áætlaður miðvikudaginn 6. júní. Á íþróttadegi eru settar upp íþróttastöðvar í garðinum og áhersla á útihreyfingu.

Einnig er stefnt að því að halda hjóladag, sitt hvorn daginn fyrir eldri og yngri deildar og mun hann verða auglýstur betur þegar þar að kemur en Vinaholt, Hraunholt og Hnoðraholt eru að stefna á 12.júní og Móholt og Nónholt 13. júní. Á hjóladegi geta börnin komið með hjól eða hlaupahjól að heiman og þeir sem koma með hjól þurfa að hafa hjálm meðferðis (muna að merkja).

Við viljum að lokum benda á mikilvægi þess að láta starfsfólk alltaf vita þegar barn er sótt í leikskólann og passa að loka á eftir sér hliðunum inn í garðinn, þetta er öryggisatriði sem skiptir miklu máli ekki síst á sumrin þegar útiveran er meiri. Einnig verða hurðir læstar að framan eftir klukkan 16:00 á daginn og þá gengið í gegnum garðinn.

Starfsfólk þakkar fyrir ánægjulegt og gott samstarf á liðnum vetri.

© 2016 - 2024 Karellen