news

Fréttabréf fyrir desember - á döfinni

01. 12. 2019

Aðventan er gengin í garð og jólaundirbúningur í leikskólanum eins og víða en hefðbundið hópastarf fer í jólafrí. Á aðventunni læra börnin meðal annars ljóðið Aðventa, eitt erindi í hverri viku sem er síðan sungið í sameiginlegri söngstund í sal á föstudögum um leið og kveikt er á kertunum á aðventukransinum. Jólasögur og söngvar leggja sinn ljúfa blæ yfir mánuðinn og lögð verður áhersla á að draga úr þeirri spennu sem jólamánuðurinn getur valdið. Ýmsir viðburðir eru framundan og gott að hafa þetta allt saman í dagatalinu. Leikskólinn verður lokaður á aðfangadag 24.des., jóladag 25.des., annan í jólum 26. des., gamlársdag 31. des og á nýársdag 1.jan.Vinsamlegast látið okkur vita ef börnin verða í aukafríi á milli jóla og nýars, þetta árið eru eingöngu tveir dagar þarna á milli. Það hjálpar okkur hvað varðar skipulagningu innkaupa matvæla að vita hvað von er á mörgum börnum í leikskólann.

Aðventuhátíð: Miðvikudaginn 4. desember kl. 9:30 verður helgistund í Vídalínskirkju, sóknarprestar taka á móti börnunum. Í helgistundina fara öll börn fædd 2014, 2015 og 2016. Lagt verður af stað gangandi frá Bæjarbóli upp úr 9:00. Yngri börnin fædd 2017 og 2018 eiga saman notalega stund í leikskólanum.

Foreldraheimsókn á aðventunni: Fimmtudaginn 5. desember kl. 15:00 - 16:00 er foreldrum boðið að koma í jólaheimsókn, þiggja heitt súkkulaði og smákökur sem börnin hafa bakað og kynnast jólaundirbúningi í leikskólanum.

Rauður dagur: Föstudaginn 6. desember ætlum við að hafa rauðan dag og þá mætum við í einhverju rauðu og syngjum saman jólalög í aðventustund í salnum.

Fyrsti jólasveinninn kemur til byggða aðfaranótt 12.desember þannig að skórinn fer í gluggann á miðvikudagskvöldi þann 11.desember. Jólasveinarnir stilla skógjöfum í hóf eins og vanalega.

Jólagleði-jólaball: Fimmtudaginn 12. desember jólagleði í leikskólanum.
kl. 9.30 til 10:30 verður dansað í kringum jólatréð og jólasveinar koma í heimsókn.
kl. 11:30 og 12:00 Jólamatur, lambalæri með tilheyrandi meðlæti og ís í eftirmat.

Jólaleikrit : Föstudaginn 13. desember Kl.9:30 verður jólaleikritið "Pönnukakan hennar Grýlu" sem er skemmtileg og falleg jólasaga unnin upp úr evrópskri þjóðsögu. Bernd Ogrodnik brúðuleikari er höfundur og flytjandi.

© 2016 - 2020 Karellen