news

Dagur mannréttinda barna - barnafundur

23. 11. 2020

Á föstudaginn var dagur mannréttinda barna en sá dagur er afmælisdagur barnasáttmála sameinuðu þjóðanna. Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindasamningur heims og kveður á um þau réttindi sem öll börn eiga að njóta.

https://www.barnasattmali.is/

Á Bæjarbóli hélt leikskólastjóri Bæjarbóls fund með börnum í elsta árgangi í tveimur hópum. Rætt var um barnasáttmálann og börnin spurð álits á nokkrum atriðum.

Fundurinn var haldinn inn í sal og fengu börnin hressingu í lok fundar. Meðal efnis fundarins var að ræða réttindi barna, líðan í leikskólanum, leikfangakost leikskólans, nám og matseðil.

Börnin ræddu hvar væri skemmtilegast að leika og hvernig þeim liði. Þeim líður almennt vel í leikskólanum en finnst leiðinlegt þegar enginn vill leika eða einhver er að meiða. Þau voru með ákveðnar hugmyndir um hvað væri hægt að gera ef einhverjum liði illa t.d. að vera með honum, spyrja hvað væri að, hjálpa, segja fyrirgefðu og knúsa. Tveir nefndu að það væri leiðinlegt í Dimmalimm leiknum.

það skemmtilegasta í leikskólanum er meðal annars að spila, lita, leika í lego, hoppa á trampólíni, leika í salnum og leika í holukubbum. Það er alveg ljóst að holukubbasvæðið er mjög vinsælt.

Þegar rætt var um uppáhaldsmat barnanna í leikskólanum var nefndur lax, hakk og spaghetti, fiskur, rúgbrauð og pítsa.

þau myndu gjarnan vilja fá pulsur í matinn þegar þau voru spurð hvað þau myndu velja ef þau mættu ráða og jafnvel kókómjólk með. Spurning hvort hægt er að verða við þeirri bón einhvern daginn.

Sá matur sem sumum finnst ekki nógu góður er t.d. brokkolí og blómkál, skyr, fiskur og pasta, annars voru flest á því að það væri bara frekar góður matur í leikskólanum.

þegar rætt var hvort eitthvað vantaði í leikskólann t.d. ný leikföng þá komu óskir um að fá playmódót, playmóskip og playmókalla, ruggu í garðinn og líka kannski rússíbana og stóran bíl. Nokkrum fannst ekki neitt dót vanta.

Börnin ræddu líka að þau væru búin að læra nýja hluti á Bæjarbóli t.d. að gera tölustafi, sauma, gera pappírsleir, skrifa nafnið sitt og þjálfa fingurna.

Að lokum spurði leikskólastjóri hvort hún gæti gert eitthvað betur, eða fyrir þau og kom fram að hún gæti knúsað þau, búið til íþróttaálf í snjónum og sett upp rússíbana í garðinn.

Að lokum fengu þau blað með myndum af nokkrum atriðum úr barnasáttmálanum og gátu teiknað sína mynd aftan á blaðið.

Það var virkilega gaman að heyra raddir barnanna á fundinum.

© 2016 - 2021 Karellen