news

Bóndadagur og þorrablót

24. 01. 2020

í dag var haldinn hátíðlegur bóndadagurinn með þorrablóti, söngsal og gleði. Alda Helgadóttir fyrrum deildarstjóri á Bæjarbóli kom í heimsókn og spjallaði við börnin um gamla tíma. Einnig sá Þóranna um undirspil í salnum og sungin voru hefðbundin þorralög. Alda kom prúðbúin með skotthúfu á höfðinu og með gamaldags svuntu sem minnti á upphlut. Hún sýndi börnunum mjólkurbrúsa, ask, roðskó með lepp, rokk og ullarflóka ásamt gamaldags leikföngum. Öll börnin voru búin að gera sér höfuðfat fyrir daginn sem sett svip sinn á söngsalinn. Höfuðfötin voru meðal annars skreytt með rúnaletri. Einnig var hefðbundin dagskrá þar sem hver deild var með söngatriði og svo var dansað.

Í ár var fenginn að láni leikfangakassi frá þjóðminjasafninu en í honum voru ýmsir gullmolar sem minna á gamla tíma. Bein, horn og skeljar, ýmis tréleikföng, gamlar ljósmyndir og fróðleikur. Kassinn fékk að vera í leikskólanum alla vikuna og gátu börnin kynnst leikefninu. Þetta var virkilega skemmtileg viðbót við starfið í aðdraganda þorrans.

Hádegisverðurinn var ekki af verri endanum, slátur, svið, sviðasulta, harðfiskur, flatkökur og hangiáleg, rófustappa, hrútspungar og hákarl. Það skemmtilegasta við matartímann á þorrablóti er að þá má syngja við matarborðið.

Skemmtilegur og vel heppnaður dagur.

Nöfn barnanna með rúnaletri

© 2016 - 2020 Karellen