news

vikupóstur

05. 06. 2019

Síðustu dagar hafa verið virkilega þægilegir þar sem sólin lét heldur betur sjá sig. Við höfum verið mikið úti að leika, fórum í útihreyfingu meira að segja og alls konar leiki í útiveru. Við höfum nýtt okkur skotið fyrir aftan Hraunholt, leikið okkur þar með mismunandi dót, krítað, málað úti, borðað úti og haft það notalegt. Í síðustu viku fórum við í gönguferð í garðinn minn þar sem börnin fengu að prófa trampolín. Það sló heldur betur í gegn og allir voru mjög ánægðir eftir þá ferð.

Í dag var síðasti dagurinn minn með ykkar börnum í vetur. Við áttum dásamlega samverustund í morgun þar sem við rifjuðum upp allt það skemmtilega sem við erum búin að gera saman í vetur. Það sem börnin mundu helst eftir var þegar jólasveinarnir komu í heimsókn, öll danspartýin og tónlistarstundirnar, ristaða brauðið á föstudögum, hópastarf og svo auðvitað vorferðin okkar í fjöruna. Við erum búin að bralla ýmislegt á hverjum degi og ég vona að okkur hafi tekist að gera skólaárið eftirminnilegt og skemmtilegt. Við fórum síðan í leiklistarstund úti í garði eftir hádegi þar sem við vorum að prófa fingrabrúður. Við fórum einnig úr skónum og sokkunum og löbbuðum berfætt í grasinu, fórum í dansleiki og hlaupaleiki. Í lokin fengu allir litla ,,gjöf" - myndaramma sem þau máluðu sjálf með hópmynd af deildinni.

Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur öllum innilega fyrir frábært samstarf í vetur. Ég hef virkilega notið þess að kenna börnunum ykkar og er þakklát fyrir allt sem þau hafa kennt mér. Þau eru algjörir snillingar sem munu án efa gera góða hluti í framtíðinni❤ Ég óska ykkur öllum gleðilegra stunda í sumar, vonandi er veðrið síðustu daga einhver vísbending um hvernig sumarið verður. Munið að stoppa og njóta með litlu krúttunum ykkar, það er svo mikilvægt ????

Minni á að það er lokað næstu þrjá daga vegna útlandaferðar starfsmanna til Berlínar. Það verða svo Ragna, Alma, Sofia og nýr kennari sem heitir Elli sem taka við eftir helgi á Hraunholti. Ekki hika við að heyra í þeim og/eða Önnu leikskólastjóra ef eitthvað er.

Takk fyrir mig elskurnar og gleðilegt sumar

Heiða ❤

© 2016 - 2020 Karellen