news

Vikupóstur 6. maí 2019

06. 05. 2019

Síðustu vikur hafa verið uppfullar af frídögum og starfið þar af leiðandi verið slitið svolítið í sundur. Við höfum þó reynt að halda rútínu eins og hægt er. Ég vil þakka ykkur kærlega fyrir komuna á opna húsið í síðustu viku, svo gaman að fá alla í heimsókn að skoða afrakstur vetrarins og ég vona að þið hafið haft gaman af ❤

Við fórum í skemmtilega ferð í síðustu viku að tína rusl í nágrenni leikskólans. Börnin voru svo dugleg að safna öllu rusli sem þau fundu í fötur og voru virkilega stolt þegar ruslinu var síðan hent í gáminn hér fyrir utan. Við teiknuðum svo myndir af ruslapoka með ruslinu sem við fundum og ræddum um það hvað það er mikilvægt að henda ruslinu í ruslatunnur og að það eigi ekki að kasta því á jörðina.

Skipulögðu starfi er lokið sem þýðir að hópastarf, lesmál, tónlistar- og hreyfistundir eru búnar og við tekur meiri útivera, gönguferðir, útileikir og þess háttar. Í þessari viku erum við að fjalla um fjöruna, sjóinn og ströndina og stefnum á að fara í gönguferð á miðvikudaginn niður í fjöru. Þar ætlum við að finna steina og skeljar til að nota í föndur. Við spjölluðum heillengi um fjöruna í samverustund í morgun en flestir sáu fyrir sér strönd og spurðu hvort við værum þá í sundbol og hvort við tækjum skóflu og fötu með okkur ???? Við ætlum að leggja af stað frekar snemma, um 09:15 svo við höfum góðan tíma í ferðina, svo endilega verið komin fyrir þann tíma. Þessi vika er því fjöruvika og við munum vinna verkefni í tengslum við það. Næsta vika verður svo sveita/dýra vika og við munum föndra, syngja, leika með og skoða bækur um dýrin alla vikuna. Sveitaferðin er svo á föstudeginum 17.maí.

Nokkur praktísk atriði:

  • Á morgun (þriðjudag) fer mappa heim með öllum listaverkum og verkefnum vetrarins
  • Viljum endilega hafa strigaskó og stígvél í leikskólanum núna, léttar úlpur/jakka og léttar húfur.
  • Gott að hafa sólarvörn í hólfinu hjá barninu - því stundum skín hún sú gula ef við erum heppin
  • Muna að skrá sig í sveitaferðina ????

Bryndís kvaddi okkur í síðustu viku og Lísa hættir í þessari viku. Við þökkum þeim kærlega fyrir samstarfið í vetur. Alma og Katla koma inn í staðinn fyrir þær.

Endilega hafið samband ef það er eitthvað

Takk takk

Heiða ????

© 2016 - 2020 Karellen