Vikupóstur 5. febrúar

05. 02. 2019

þorrablótsvikan gekk mjög vel, og við skemmtum okkur konunglega við að spjalla um gamla tíma og skoða gamalt dót. Þau voru þó ekki til í að samþykkja það að í gamla daga hafi ekki verið hægt að horfa á ipad eða leika sér með Hvolpasveitadót. Ég sýndi þeim steina, ull og skeljar og sagði þeim að börnin í gamla daga hefðu aðeins haft svona hluti til þess að leika sér með. Þessi yngri sýndu því engan áhuga og þau eldri héldu eflaust að ég væri bara að bulla ???? Þau fluttu frábært atriði í salnum og voru svo fín í lopapeysum með hattana sína sem þau bjuggu til í hópastarfi. Allir voru mjög duglegir að smakka allan matinn og súrsaði pungurinn sló heldur betur í gegn hjá þeim en það hökkuðu hann allir í sig, okkur til mikillar undrunar. Við skoðuðum og lituðum myndir af álfum, tröllum, víkingum og þorramat, lásum sögur um t.d. Gilitrutt og föndruðum okkar eigið tröll.

Í síðustu viku vorum við að vinna með stærðfræði, þá aðallega formin, litina og tölur. Við lituðum myndir af tölunum, æfðum okkur að telja alls konar hluti, flokkuðum form og liti og lásum bækur um tölur, form og liti. Þau sýndu þessu mikinn áhuga og eru orðin svo dugleg að þekkja formin og litina. Vikan endaði svo á flæði þar sem stærðfræði var þemað og það voru alls konar verkefni í boði um allan leikskólann, t.d. þræða, lita og líma á form, flokka dúska í mismunandi litum, einingakubbar, holukubbar og leirverkefni með tölur.

Í þessari viku tekur við nýr litur og nýtt form þar sem febrúar er genginn í garð, fjólublár tígull (eða demantur eins og sumir segja). Í hópastarfi mála þau og líma það form, fá að sulla í vaskinum inni á baði, fara í bangsaleiki og teikna sjálfsmynd af sér meðan þau horfa í spegil. Þau hafa verið að æfa lagið um Krumma og munu halda því áfram þessa viku og flytja það á föstudag í söngsal. Í síðustu viku lituðu þau mynd af Krumma með svörtum klessulit og skreyttu og Krummi kom einnig í heimsókn í tónlistarstund og söngstund og mun gera það aftur í þessari viku. Við stefnum á að fara í gönguferð í vikunni svo lengi sem veður leyfir, og ætlum þá að gera tilraun til þess að ganga upp á Lyngmóa-leikvöllinn og leika okkur þar. Það er síðan leirvika og nýr fjólublár leir í boði á morgnana og eftir hvílu, og við erum að lesa ævintýrabækur, Gullbrá og Rauðhettu. Börnin munu síðan lita mynd úr sögunum í lok vikunnar. Bókaormur vikunnar er Andrea og hún má koma með bók í leikskólann sem við skoðum saman og lesum. Það verkefni hefur gengið mjög vel, og þau tvö sem nú þegar hafa verið bókaormar stóðu sig ótrúlega vel, sögðu frá bókinni sinni og sýndu krökkunum myndirnar. Í næstu viku tekur Birkir Óli við titlinum.

Á miðvikudaginn, 6.febrúar, verður ömmu- og afakaffi í leikskólanum frá 15:00-16:00. Þá er öllum ömmum og öfum sem komast boðið að kíkja í kaffibolla og bakkelsi, skoða leikskólann og leika með börnunum í smá stund. Við ætlum að syngja smá fyrir þau og jafnvel bjóða þeim að dansa smá með okkur líka. Það er að sjálfsögðu í boði að senda afleysingu ef ömmur og afar hafa ekki tök á því að koma, frænkur, frændur eða þið sjálf velkomin í staðinn.

Segjum þetta gott í bili, ekki hika við að heyra í mér ef það er eitthvað :)

kv. Heiða

© 2016 - 2019 Karellen