news

Vikupóstur 27. september 2019

27. 09. 2019

Síðustu vikur hafa gengið framar vonum, þrátt fyrir einhver veikindi hjá börnunum. Börnin eru öll ,,útskrifuð" úr aðlögun að mínu mati og standa sig ótrúlega vel allan daginn, hafa gaman af starfinu og eru glöð.

Í hópastarfi höfum við verið í könnunarleik og að æfa okkur að kubba. Í listakrók teiknuðum við og límdum gula önd og prófuðum að stimpla með gulum. Við bjuggum einnig til listaverka-möppu og skreyttum hana.

Í lesmáli í þessari viku lásum við bækurnar um Litla barnið (morgunverkin og leiktími) og orðin sem við erum að æfa eru ,,týndur" og ,,nebbi".

Í gær fórum við í fyrstu gönguferðina okkar. Allir fóru í vesti og leiddust eða sátu í kerru. Við fórum fyrir neðan leikskólann og völdum okkur tré sem við ætlum að fylgjast með í vetur í gegnum árstíðirnar. Við tókum mynd með trénu í haustbúning og sungum fyrir það nokkur lög. Við fengum svo rauð ber í láni hjá trénu sem við tókum með okkur heim. Síðan löbbuðum við lengra, niður að leikvellinum. Fórum yfir hæðir, hóla, gras og möl og æfðum okkur að ganga á mismunandi undirlagi. Við skoðuðum öll laufblöðin í kringum okkur, og hvernig þau eru á litin. Allir stóðu sig svo vel í þessari ferð og höfðu virkilega gaman af. Vonandi sáu allir myndir á karellen.

í vikunni fengum við líka nýjan lítinn kastala í litla garðinn okkar, höfum nýtt hann mikið og farið út eftir hádegi. Veðrið hefur verið dásamlegt og okkur í hag. Við tíndum laufblöð af trjánum fyrir utan sem við notum í haustverkefni.

Í dag var dótadagur og margir komu með leikfang í leikskólann. Við höfðum frjálsa leikstund í stóra herberginu í morgun og hlustuðum á Skoppu og skrítlu, það var rosalega gaman. Síðan fórum við í söngsal sem hafði þemað ,,leikföng". Við tróðum upp með laginu ,,við klöppum öll í einu" og mörg þeirra gerðu hreyfingar með ???? SVO dugleg að fara upp á svið fyrir framan alla.

Í næstu viku tekur við nýr mánuður og þar af leiðandi nýtt form og nýr litur, rauður ferhyrningur. Í október munum við vinna með þemu eins og haustið, bangsadaginn, halloween og æfa okkur að dansa og fara í leiki í hópastarfi. Við fáum einnig þrjá nýja meðlimi í hópinn í næstu viku, en þau hefja aðlögun á mánudag.Ég minni á foreldrasamtöl sem eru í boði í næstu viku fyrir þá sem vilja, skráning er á töflunni í forstofunni. Minni einnig á myndir af fjölskyldunni sem ég vil gjarnan fá sendar ef þið hafi tök á. Þrjú börn eru komin með myndir upp á vegg og þær eru mikið skoðaðar yfir daginn.

© 2016 - 2020 Karellen