Vikupóstur 21. september

01. 10. 2018

Takk fyrir vikuna sem líður. Þennan mánuðinn erum við með þemað ,,leikskólinn minn" og bæði vinnum og spjöllum mikið um hvernig það er að vera í leikskóla, skoðum dagskipulagið og lærum hvernig rútínan er. Hópastarfið gengur vel og börnin eru strax farin að biðja um að fara í hópastarf. ,,Heiða, hvenær kemur hópastarf" sagði ein lítil dúlla í vikunni :)


Í myndlist límdum við alls konar gult efni á gula hringinn okkar sem við máluðum í síðustu viku. Listaverkið hangir frammi á gangi fyrir ofan skógrindurnar. Börnin eru afar stolt af þessu listaverki og benda á það í hvert skipti sem þau ganga framhjá.

Í tónlist æfðum við okkur með hristur. Æfingin fólst aðallega í því að hrista þegar kennarinn segir til og svo stoppa þegar kennarinn segir. Síðan fengu allir að hrista frjáls og dansa um leið við skemmtilegt lag.

Lesmálið gengur mjög vel, og börnin eru mörg hver búin að læra hvar þau sitja í lestrarstundum. Þau eru ótrúlega dugleg að hlusta á sögurnar og hafa mjög gaman af því að lesa. Það er mjög dýrmætt og við munum nýta það mjög mikið, enda er lestur svo góð undirstaða fyrir allan lærdóm í framtíðinni. Við munum í vetur fara í ferð á Bókasafn Garðabæjar, nokkur börn í einu, en þar fáum við sögustund og tækifæri til að skoða bækur og alls konar örvandi efni sem er í boði í barnahorninu á safninu. Yngri hópurinn las þessa viku bókina ,,Depill fer í leikskóla" og skoðaði myndabók um leikföng. Ragna og Þóranna lásu fyrir þann hóp. Eldri hópurinn las bækurnar ,,Fyrstu kynnin af leikskólanum" og ,,Hoppi og Fló, spennandi dagur". Ég las fyrir þann hóp og við völdum orðið ,,leikskóli" fyrir þessa viku. Í hverri viku velur hver hópur sér orð úr bókinni sem er lesin og við spjöllum um það orð í hverri lestrarstund og þegar tækifæri gefst til.

Þessi vika var pinnavika og börnin æfðu sig í að pinna. Í leiðinni kennum við þeim litina, þau æfa sig í að sitja og vinna við borð, og þjálfa fínhreyfingar.

Í morgun fórum við í söngsal, en það er líklega eitt það skemmtilegasta sem börnin gera. Þóranna sér um söngsalinn og í morgun lék hún lítið leikrit fyrir okkur um litla uglu. Við sungum nokkur lög og spjölluðum við ugluna.

Við fórum bæði í frjálsan leik í salnum og í frjálsan leik í heimiliskrók. Það er ótrúlega gaman að sjá hvað börnin una sér vel í leik þegar þau fá frið til þess. Í salnum eru þau virkilega dugleg að æfa sig að klifra, ganga á slá og kasta boltum, og í heimiliskrók er aðalmálið að elda mat og láta dúkkur og bangsa fara að lúlla.

Börnin eru núna að æfa sig í að setjast í sitt hólf í fataklefanum í hádeginu á meðan umsjónarmennirnir fara og sækja matinn. Ég vona að allir þeir sem áttu umsjónarmann í þessari viku hafi séð myndina á Karellen, en þau eru algjör ofurkrútt í risastóru svuntunum sínum. Þeim finnst þetta ótrúlega merkilegt, að vera umsjónarmaður, og keyra matarvagninn mjög stolt inn á deild.


Við höfum einnig verið að æfa táknin fyrir ,,kalt" , ,,Bæjarból" og ,,leikskóli". Lögin sem við höfum helst verið að syngja eru ,,Fiskalagið" ,,Litalagið" ,,Í leikskóla er gaman" og ,,Kolakassinn".

Annars vil ég biðja ykkur um að koma með kuldagalla í næstu viku (líka pollagalla) og passa að það séu hlýjar húfur og vettlingar með. Körfur barnanna sem eru fyrir aukaföt eru komnar inn á baðherbergi ef einhver er að leita af þeim. Þær eru orðnar örlítið minni en þær voru, og við viljum aðeins hafa aukaföt í þessum körfum, öll útiföt eiga að vera í hólfunum. Það sem við þurfum helst af aukafötum eru samfellur, buxur/sokkabuxur og bolir. Þið megið endilega vera dugleg að kíkja sjálf inn á bað hvort það vanti eitthvað í körfuna og það sama gildir um bleyjur. Þær eru núna í hillunni við hliðina á körfunum inn á baði.

© 2016 - 2019 Karellen