Vikupóstur 1. október

11. 10. 2018

Í síðustu viku var nóg um að vera. Við lásum áfram bækur um leikskólann og fórum vel yfir dagskipulagið í leiðinni. Börnin eru núna orðin nokkuð klár á því hvað kemur næst og þar af leiðandi orðin mjög örugg hjá okkur á daginn. Í listakrók stimpluðum við hringi með gulri málningu og skreyttum með gulu glimmeri og kreppappírs-dúllum. Það var leirvika hjá okkur sem börnunum finnst ótrúlega skemmtilegt. Allir fóru í formlegan könnunarleik, en fyrir þá sem ekki vita, þá er það leikur með verðlaust efni, t.d. alls konar dollur, keðjur, lykla og brúsa. Börnin fá að leika sér með efnið óáreitt í smá tíma og við kennararnir fylgjumst eingöngu með og skráum niður hvað gerist í leiknum. Þannig getum við fylgst með framförum og séð hvaða börn þurfa helst aðstoð í leik. Börnin hafa mjög gaman af þessu enda er þetta mjög óvanalegt dót. Þau geta því dundað sér mjög lengi við að setja dót ofan í dollur, búa til hljóð og raða saman. Á föstudaginn var fórum við í söngsal og í fyrsta sinn fóru allar deildir upp á svið og sungu fyrir hina krakkana. Við sungum lagið um litina og öll börnin voru þvílíkt spennt að fá loksins að troða upp. Ég hef sjaldan séð hóp sem er jafn spenntur fyrir því, og margir sungu hátt og snjallt fyrir áhorfendur. Þegar líður á veturinn munum við bæta inn kynnum í söngsalinn. Þá er eitt barn sem æfir sig alla vikuna í að kynna sig og lagið sem deildin mun syngja. Það barn kynnir svo atriðið í söngsalnum. Við héldum upp á afmælið hennar Emmu, en hún varð 2.ára í síðustu viku. Óskum henni aftur til hamingju :) Þegar börnin eiga afmæli fá þau að búa til kórónu, sitja við hásæti í matartímum og borða af Mikka mús disk og drekka úr Mikka mús glasi. Það er ótrúlega spennandi. Svo er að sjálfsögðu sungið nokkrum sinnum fyrir þau og þau fá að vera umsjónarmenn.

Í dag tók við nýr mánuður. Október er rauður mánuður hjá okkur og formið sem unnið verður með er ferhyrningur. Í þessari viku í hópastarfi málum við rauðan ferhyrning, lærum að spila dýraspil, höldum áfram í könnunarleik og förum í tónlistarstund þar sem áherslan er á að æfa sig í að skiptast á og fylgja fyrirmælum kennarans. Tákn vikunnar er ,,kalt" og lag vikunnar er ,,Í leikskóla er gaman". Við munum síðan meðal annars fjalla um haustið í þessum mánuði og vinna verkefni tengd því, vinna örlítið með Hrekkjavökuna og svo verður líka bleikur dagur þar sem öll börnin mega endilega mæta í bleikum fötum.


Ég vil þakka ykkur fyrir að taka ábendingum um útifatnað barnanna vel, en það eru allir komnir með hlý og góð föt fyrir útiveru. Það voru einhverjir vettlingar og húfur sem urðu eftir í þurrkskápnum um helgina, svo ef einhver saknar einhvers þá endilega kíkið í skápinn. Ég mun bjóða upp á foreldrasamtöl fyrir þá sem vilja núna á næstunni, en ég mun hengja upp skráningarblað á hurðina þar sem þið getið skráð ykkur ef þið viljið, svo fylgist endilega með því ef þið viljið hittast og spjalla.

Fleira er ekki í fréttum í bili, líkt og áður hvet ég ykkur til að spyrja eða spjalla ef það er eitthvað :) Takk takk

Heiða


© 2016 - 2019 Karellen