Vikupóstur 12. október

12. 10. 2018

Kæru foreldrar

Takk fyrir góða viku. Hópastarfið gekk vel, við héldum áfram með könnunarleikinn en hann er ótrúlega vinsæll hjá börnunum, tónlistarstundir voru á dagskrá og allir eru orðnir mjög duglegir í að skiptast á, hlusta og láta hljóðfærin ,,sofa", og í listakrók límdum við alls konar rautt efni á ferhyrninginn okkar.

Eldri börnin fengu að prófa að fara í gönguferð rétt út fyrir leikskólann. Fyrsta ferðin snýst aðallega um það að kenna þeim að ganga í röð og halda í bandið. Við fórum í lundinn við hliðina á skátaheimilinu (bláa húsið við hliðina á Bæjarbóli) og þar fengu börnin að hlaupa frjáls og tína laufblöð í öllum litum. Síðan límdu börnin laufblöðin á blað og skreyttu með glimmeri. Þeim fannst þetta ótrúlega gaman og virkilega merkilegt að fá að fara út af lóðinni. Við munum hiklaust reyna að fara í gönguferð einu sinni í viku svo lengi sem veður leyfir. Þau allra yngstu eiga eftir að fá að tína laufblöð, en þau munu gera það í næstu viku og vinna verkefnið í tengslum við það.

Í lesmáli lásum við um haustið og skoðuðum orð tengd haustinu eins og rigning, laufblöð og vindur. Við æfðum lagið ,,við klöppum öll í einu" og sungum það einmitt í morgun í söngsal. Harpa Karen steig fyrir framan hópinn og kynnti okkur með aðstoð Þórönnu. Svo dönsuðum við okkur í gegnum allt lagið. Þau stóðu sig frábærlega og við erum ótrúlega stoltar af þeim. Í dag var einnig bleikur dagur og margir mættu í bleikum fötum í leikskólann sem var mjög skemmtilegt. Við héldum danspartý í hádeginu í tilfefni dagsins og dönsuðum t.d. hreyfa litla fingur, skýin felum ekki sólina, þú skalt klappa ef þú hefur létta lund og höfuð herðar hné og tær. Svo í lokin lögðumst við í gólfið og slökuðum á, sungum Dvel ég í draumahöll og teygðum hendurnar lengst upp í loft.

Nú er orðið frekar kalt úti og því gott ef að börnin eru með kuldaskó með sér. Allir þurfa að hafa lambhúshettu og góða vettlinga. Við fengum nýjar skóhillur í gær eins og flestir hafa líklega séð, og því mun auðveldara fyrir alla að bæði raða skóm og finna þá ;) Það er þó ekki pláss fyrir mikið meira en tvenn pör af skóm á barn, svo það er gott að hafa ekki mikið meira en það.

Ég sjálf verð í útlöndum alla næstu viku, vildi láta ykkur vita af því. Það verður þó hengt upp blað á mánudag með tímasetningum á foreldrasamtölum, þið megið endilega skrá ykkur á blaðið ef þið viljið hittast :) Annars þakka ég aftur fyrir vikuna og óska ykkur góðrar helgar með dásamlegu krúttunum ykkar

Kveðja, Heiða


© 2016 - 2019 Karellen