news

Vikupóstur 6. febrúar

06. 02. 2020

Á morgun er dagur stærðfræðinnar og við tökum þátt í honum með því að hafa flæði milli deilda og vera með stærðfræðileiki sérstaklega áberandi.

Í þessari viku er líka tannverndarvika. Við höfum lesið bækur um heimsóknir til tannlæknis skoðað bækur um tennur og börnin teiknuðu tennur. Þær myndir eru ekki komnar upp á veggi en eru á leiðinni, þær síðustu voru nefnilega teiknaðar í dag. Á morgun eigum við von á tannlækni í heimsókn hún ætlar að sýna okkur eitthvað skemmtilegt og fræðandi. Við munum horfa á Karíus og Baktus myndina í næstu viku, það er hreinlega ekki pláss fyrir hana í þessari.

Afa og ömmukaffið er í dag og af því tilefni teiknuðu börnin myndir af ömmum og öfum sem eru á veggnum á ganginum fyrir framan Móholt. Endilega kíkið á þær.

Það komu nokkrir foreldrar á opna daginn okkar á þriðjudaginn. Takk kærlega fyrir komuna þið sem gátuð fundið tíma til að líta við.

Næsta vika er bara róleg miðað við þessa. Þá verður söngsalur á föstudag og börnin ætla að syngja ABCD. Danskennslan átti að byrja næsta föstudag en hún frestast til öskudags þá byrjar hún með stæl á öskudagsballi.

Það styttist líka í skipulagsdag en hann er 21. febrúar. Þá er leikskólinn lokaður.

Börnin eru byrjuð að æfa þulu/ljóð fyrir þarnæsta söngsal. Hún heitir 12 eru synir tímans og er um mánuðina. Eitt foreldri óskaði eftir að fá krækjur á texta eða textana senda heim með póstum. Ég mun finna út úr því framvegis. Ég stefni að því að taka ný lög inn á um það bil tveggja mánaða fresti og vera með 10 lög í gangi í einu. Í samverustundum á morganna draga börnin sem eru veðurfræðingar og borðþjónar spjöld með lögum sem eru sungin þann dag. Auk þess syngum við þau tvö lög sem er verið að æfa fyrir tvær næstu söngstundir. Þannig fá öll börnin að hafa áhrif á hvaða lög eru sungin. Það gekk ekki að leyfa þeim að velja lög því þá sungum við bara þrjú lög; Gulur rauður, Fimm litlir apar og í Leikskóla er gaman. Við viljum gjarnan hafa meira á söngdagskránni.

Í janúar og febrúar erum við að syngja:

Vinalagið. - https://www.vinagardur.is/2017/03/vinur-minn-thad-er-skemmtilegast-ad-leika-ser/

Palli var einn í heiminum. - http://mennta.hi.is/verkefni/lokaverkefni/v2008/dagmthor/annad/pallivareinniheimiher.htm

Ó hangikjöt. - https://www.bornogtonlist.net/%C3%93,_hangikj%C3%B6t/

Á þorrablóti er gleði og gaman. – Sama slóð og ó hangikjöt bara skrolla aðeins niður.

Mér er kalt á tánum. - http://www.bakkaborg.is/index.php/leikskolinn/songbok/almenn-songlog/241-mer-er-kalt-a-tanum

ABCD – þennan kunna nú flestir finn ekki á netinu.

Risatröll - https://www.bornogtonlist.net/H%C3%A9rna_koma_nokkur_risa_tr%C3%B6ll/

Háttatími á himnum - https://www.austurborg.is/leikskolastarf/songbok/almenn-songlog?start=48

Tólf eru synir tímans.

Tólf eru synir tímans,

sem tifa fram hjá mér.

Janúar er á undan

með ár í faðmi sér.

Febrúar á fannir.

Þá læðast geislar lágt.

Mars þótt blási' oft biturt,

þá birtir smátt og smátt.

Í apríl sumrar aftur.

Þá ómar söngur nýr.

Í maí flytur fólkið

og fuglinn hreiður býr.

Í júní sest ei sólin.

Þá brosir blómafjöld.

Í júlí baggi er bundinn

og borðuð töðugjöld.

Í ágúst slá menn engið

og börnin týna ber.

Í september fer söngfugl

og sumardýrðin þverr.

Í október fer skólinn

að bjóða börnum heim.

Í nóvember er náttlangt

í norðurljósa geim.

Þótt desember sé dimmur,

dýrðleg á hann jól.

Með honum endar árið

og aftur hækkar sól.

Ljóð: Steingrímur Arason

/ Lag: Ingibjörg Þorbergs

© 2016 - 2020 Karellen