Vikupóstur 22. maí

25. 05. 2018

Kæru foreldrar

Í síðustu viku vorum við með risaeðluþema, eins og kanski margir tóku eftir enda voru börnin mjög upptekin af risaeðlum alla vikuna. Við bæði skoðuðum og lásum bækur um risaeðlur og forvitnuðumst um tímann sem risaeðlurnar lifðu á. Við lærðum til dæmis að risaeðlurnar voru uppi fyrir um 65 milljónum ára og að þá var ekki gras á jörðinni. Við skoðuðum einnig aðeins þróun mannsins og hvernig við fórum frá því að vera apar yfir í menn eins og við þekkjum í dag. Við föndruðum okkar eigin risaeðlu og skreyttum í takt við þann tíma sem þá var. Börnin voru viss um að það hefði verið eldur, vatn, steinar og einhvers konar jurtir á jörðinni þá og skreyttu því umhverfi risaeðlanna sinna með því. Við kusum um líklegustu skýringuna á því af hverju risaeðlurnar dóu út en það voru fjórir möguleikar í boði. Risaeðluveiki, önnur dýr borðuðu öll risaeðlueggin, loftsteinn féll á jörðina og eldgos. Loftsteinninn sigraði kosninguna og í framhaldinu lituðum við mynd af því þegar loftsteinninn skall á jörðina. Svo stimpluðum við einnig risaeðlu með höndunum okkar. Þetta var mjög skemmtilegt þema og börnin (og við haha) höfðum mjög gaman af. Ég vona að þetta hafi ekki hrætt þau eitthvað sérstaklega, en einhver sögðu mér frá draumum sem þeim dreymdi um risaeðlur. Ég tek þá drauma, sem vonandi voru ekki martraðir, á mig, og vona að þetta hafi ekki haft of mikil áhrif á þau ;)

við fórum einnig í síðasta ,,skóla-göngutúrinn" okkar, niður að Sjálandsskóla. Þar stoppuðum við síðan á ströndinni og tíndum skeljar. Síðan föndruðum við myndaramma úr skeljunum og settum hópmynd af öllum á Vinaholti í rammann. Börnin höfðu þó miklar áhyggjur af því að það væri enginn nagli í herberginu þeirra til þess að hengja myndina á, en við töldum þeim trú um að það væri eflaust hægt að redda því heima. Börnin skiptustu svo á skoðunum um hvort það væri mamma eða pabbi sem gæti sett nagla í vegginn og flestir voru á þeirri skoðun að mamma myndi gera það ;)

Við höfum lokið yfirferð yfir stafrófið og Lubba kennslan því á enda. Við fórum í síðasta tímanum í leik þar sem við þurftum að finna stafi og orð. Það var mjög skemmtilegt. Öll börnin eru búin að vera mjög virk og dugleg í þessum stundum og mörg farin að þekkja bæði stafi og hljóð. Við hvetjum ykkur til þess að viðhalda þessu í sumar, vera dugleg að lesa með þeim og fara á Bókasafnið. Síðasta tónlistarstundin var einnig í síðustu viku, en það kemur myndband úr tónlistarstund á næstu dögum. Þá getið þið séð betur hvað við höfum verið að gera :)

Í þessari viku leggjum við áherslu á heimaþekkinguna (nafn, aldur, afmælisdagur, heimili o.s.frv.) og erum að búa til hús þar sem við fyllum inn í alls konar upplýsingar og teikningar. Annars styttist hratt í að við systur kveðjum í bili en síðasti dagurinn okkar er fimmtudagurinn 31.maí, sem er í næstu viku. Við munum fara síðustu vettvangsferðina okkar á Bókasafnið miðvikudaginn 30.maí og í framhaldinu hafa smá ,,veislu" í hádeginu. Planið var að borða saman á langborði, svo horfa jafnvel á smá bíó saman og borða popp og rúsínur, og fara síðan í leiki. Ég vona að það sé í lagi :) Þann dag munu einnig öll listaverk vetrarins sem eru ennþá hér fara heim.

Því miður er veðrið ekkert að skána og því komumst við oftast aðeins út einu sinni á dag. Þið megið endilega skoða aukafötin í körfunum þegar þið komið, það gengur hratt á þau þegar það er svona blautt úti. Það vantar til dæmis langflesta aukasokka :) Ég trúi þó ekki öðru en að sólin fari nú að skína og sumarið komi loksins á næstu dögum, við vonum það alla vega.

Takk fyrir vikuna ????

Heiða

© 2016 - 2019 Karellen