news

Vikupóstur 12. september 2019

12. 09. 2019

Á morgun er skipulagsdagur og leikskólinn er lokaður. Kennarar leikskólans munu skipuleggja vetrarstarfið og fara á fyrirlestur.

Í næstu viku munum við byrja að rúlla hópastarfi og hreyfingu af stað. Vetrarstarfið verður kynnt í foreldrasamtölum sem verða 26. og 27. september fyrir Móholtsforeldra.

Í dag fóru öll börnin á Móholti í skólagarðana og tóku upp kartöflur, blómkál, hnúðkál, eitthvað kál með einkennilegu nafni og eina rófu. Hópnum var skipt niður í fjögurra barna hópa svo allir fengju að taka að minnsta kosti eina kartöflu úr moldinni. Þau sem voru ekki að taka upp fóru í hringleiki á túninu við hliðina á skólagörðunum á meðan. Ásta skólagarðakennari afhenti hópnum viðurkenningu fyrir þátttökuna í skólagarðavinnunni í sumar. Í lokin báru börnin alla uppskeruna heim í leikskóla, við munum borða grænmetið í ávaxtastundum. Viðurkenningarskjalið hangir í forstofunni.

Munið að hafa vettlinga með í leikskólann það er farið að kólna sérstaklega þegar rignir eins og í gær. Það þurfa að vera allavega tvö pör í hólfinu. Pollavettlingar eru líka þarfaþing fyrir þá sem vilja nota þá.

© 2016 - 2021 Karellen